Það eru ýmis nöfn notuð um eiginleikann að spyrja af hverju. Það er oft talað um að horfa á hlutina með augum nýliðans, temja sér forvitni eða vera líkari rassálfunum úr Ronju Ræningjadóttur.
Sama hvað þú vilt kalla það þá er ljóst að við höfum öll gott af því að hugsa soldið eins og rassálfarnir „akkuru, akkuru, akkuru það?“
Við hugsum yfirleitt ekki nóg um af hverju hlutirnir séu gerðir á þennan hátt eða hinn, þetta er bara orðið að vana og yfirleitt veit fólk ekki alveg afhverju það er vani.
Eitt algengasta svarið er „af því þetta hefur alltaf verið gert svona“ sem er pínu sorglegt fyrir fólk í okkar fagi. Önnur algeng svör eru
– Af því að pabbi/mamma og afi/amma gerðu þetta svona og það virkaði vel hjá þeim
– Ég veit það ekki
– Mér var kennt/sagt að gera þetta svona
Allt eru þetta frekar sorgleg svör þegar verið er að reyna hámarka virði eigna og starfsmanna í fyrirtækjum.
Þótt rassálfarnir hafi gengið full langt að margra mati í að spyrja af hverju þetta og af hverju hitt þá er hiklaust hægt að fullyrða að rassálfarnir voru nær sannleikanum en margir rekstraraðilar nútímans.
Ef við veltum ekki fyrir okkur af hverju hlutirnir eru gerðir á þann hátt sem við erum vön, hvernig getum við þá verið viss um að við séum að gera þá á hagkvæmasta háttinn?
Þótt pabbi þinn eða amma þín hafi alltaf gert þetta svona þýðir það ekki að það sé besta aðferðin. Það sem virkaði mjög vel fyrir 50 árum getur auðveldlega verið úrelt aðferð í dag.
Þótt eitthvað hafi ALLTAF verið gert á ákveðin hátt þýðir það ekki að það sé besta eða réttasta aðferðin og heilbrigt fyrir alla að við spyrjum hvort svo sé endilega.
Besta aðferðin við að gera eitthvað í gær er ekki endilega besta aðferðin í dag af því að í dag veit ég eitthvað sem ég vissi ekki í gær.
Besta aðferðin sem Tommi notar til að gera hlutina gæti vel verið besta aðferðin fyrir hann, en þarf ekki endilega að vera sú aðferð sem Sigga er fljótust að vinna með.
Góð og þekkt saga segir frá konunni sem sagaði jólasteikina alltaf í tvennt og eldaði í tveimur hlutum og hafði gert í mörg ár. Þegar utanaðkomandi aðili spyr eitt skiptið af hverju konan sé að skera steikina í tvennt er svarið „mamma gerði þetta alltaf svona“.
Þegar mamma er svo spurð hvers vegna steikin hafi alltaf verið söguð í tvennt er svar mömmu einfalt „við áttum ekki nógu stóran pott“.
Konan átti alveg nógu stóran pott og hafði í mörg ár soðið báða steikarbitana í sama pottinum, en alltaf skar hún hana fyrst í tvennt af því að „mamma gerði þetta alltaf svona“
Þetta er gott dæmi um aukna vinnu og meiri fyrirhöfn „bara af því að þetta hefur alltaf verið gert svona“ án þess að nokkur vita almennilega hvers vegna eða hugsi hvort þetta sé besta leiðin.
Þótt þú sért búin/n að vera framkvæmdastjóri/ mannauðsstjóri/ rekstrarstjóri eða annar flottur titill í mörg ár þýðir það ekki að þú vitir meira en allir í kringum þig.
Stundum ert þú búin/n að horfa of lengi á sama hlutinn.
Stundum eru allir í stjórnendateyminu orðnir samdauna hefðinni, þá er gott að hlusta á nýliðann eða fá utanaðkomandi aðstoð.
Einhver nýr gæti komið að málum frá öðru sjónarhorni og spurt „akkuru?“ þá mælum við með að hlusta allavega í smástund og velta fyrir sér hvort þú sért mögulega of vanafastur/vanaföst og hvort það gæti mögulega verið eitthvað í augum nýliðans/rassálfsins sem mætti skoða.