Óþarfa frestun

Á sínum tímar þegar ég vann sem lagerstjóri leit ég svo á að frágangur á vörubrettum og umbúðum væri hluti af því að taka á móti vörusendingu. Í mínum huga var þetta eitt og sama verkefnið, vörumóttöku var ekki lokið fyrr en búið var að ganga frá bæði vörunum OG ruslinu sem fylgdi.

Eftir að ég færði mig til í starfi og aðrir tóku við lagernum gerðist það oftar en einu sinni að nýjir menn voru mjög duglegir að taka upp vörurnar og ganga frá þeim alla leið uppí hillu, en töldu verkinu þá lokið, vörubretti og plastumbúðir lágu á víð og dreif og menn jafnvel klofuðu yfir það til að sinna öðrum verkefnum.
Sumir voru lengra komnir og drógu bretti og umbúðir að útganginum „svo þetta væri ekki fyrir“. Nema hvað að svo koma sendibíllar með nýjar sendingar og menn í stresskasti að reyna færa hluti og koma í veg fyrir að plast og pappi fari á flug um leið og hurðin er opnuð.

Menn sáu móttöku sendingar og frágang sem aðskilin verkefni og unnu þau á aðskildum tíma, sem varð svo til þess að verkefnin tóku lengri tíma en þau hefðu annars þurft að taka og ollu töfum á öðrum verkefnum í leiðinni.

Hugsunarhátturinn „Ég, núna“ er ekki hentugur í rekstri eða stjórnun. Slík hugsun verður kannski til þess að spara þér tíma núna, en hvorki þér né öðrum í framtíðinni. Akkúrat núna skiptir mig vissulega máli að koma vörunum upp úr kössum og fram í búð, EN er það endilega besta ráðstöfunin fyrir fyrirtækið eða samstarfsfélagana? Eða jafnvel best fyrir mig til lengri tíma litið?

Ef ég læt mig hafa það að fjarlægja vörubretti, pappakassa og plastumbúðir jafnóðum með vörumóttöku þá þvælist þetta ekki fyrir mér þegar næsta sending kemur og heldur ekki fyrir öðrum þegar þeir ganga hjá til að sækja aðrar vörur.

Stundum getur vissulega verið rétt að fresta verkefni til seinni tíma eða láta aðra um það, eins og kom stuttlega fram í fyrri pistli. En það borgar sig að tryggja að slík frestun valdi ekki töfum á öðrum verkefnum á meðan.

Þetta á við í öllu, hvort sem verkefnið er að henda rusli og færa bretti eða leiðrétta texta og skrifa kóða. Ef það flýtir ekki fyrir til lengri tíma að geyma verkefnið borgar sig ekki að fresta því. Spýttu frekar aðeins í lófana í smástund og þá er ekkert víst að þú sért neitt lengur að klára þótt þó takir þessi örfáu aukaskref.

Við þurfum að hjálpast að við að einfalda og bæta lífið fyrir fleirum en bara okkur sjálfum í núinu.
Ef þú átt erfitt með að taka tillit til annara getum við byrjað smátt, hugsaðu um sjálfan þig á eftir eða á morgun. „Ef ég klára þetta verkefni núna, auðveldar það líf mitt á eftir eða á morgun?“ Einn daginn áttu eftir að geta unnið í því að klára verkefni sem auðvelda öðrum lífið.

Færðu inn athugasemd