Brennum bátana og plöntum trjám

Ég var að hlusta á podcastið hjá Patrick Lencioni og félögum í fríinu og þeir settu í einfaldan búning hluti sem ég er búinn að vera hugsa um núna á Covid tímum.
Annars vegar það að ef þú brennir bátinn þá er erfiðara að snúa við og er þar vitnað í þegar landkönnuðurinn Cortés brenndi bátana eftir komuna til Mexíkó.
Hins vegar kínverska máltækisins „Besti tíminn til að planta tré er fyrir 20 árum. Næst besti tíminn er núna“.

Þetta verður enn betra þegar við tökum þetta saman. Ef þú ætlar að breyta einhverju þá þarftu að raunverulega breyta því, „brenna“ það gamla og „planta“ því nýja. Ef gamla leiðin er ennþá til, ef bátarnir eu ennþá við bryggjuna, þá er alltof auðvelt að „fara heim aftur“, að snúa við og halda áfram með gömlu aðferðina þegar það nýja reynist of erfitt. Það er auðvelt að detta í gamla farið og halda áfram því sem við erum vön.
Í stað þess að eyða tíma í eftirsjá yfir að hafa ekki breytt ófullnægjandi ferlum í góða ferla þá ætti viðkomandi að gera eitthvað í málinu um leið og hann/hún uppgvötar „villu síns vegar“ og planta tréinu í dag.
Þú getur ekki breytt fortíðinni, en þú getur komið í veg fyrir að dagurinn í dag verði framhald af mistökum fortíðar.

Ein helsta ástæðan fyrir því að Cortés brenndi bátana var til að menn hans hefðu almennilega hvatningu fyrir því að berjst áfram fyrir landvinningum gegn Astekum í því sem við þekkjum núna sem Mexíkó. Ég hef aldrei tekið þátt í landvinningum, en ég ímynda mér að það sé frekar lýjandi að sækja fram í nýju óvinveittu landsvæði þar sem dýr, náttúran og innfæddir vilja drepa þig. Þegar allt er á móti þér í fleiri fleiri daga þá langar þig eðlilega að snúa við, stíga upp í bátinn og sigla heim, þar sem er vinveitt umhverfi, góður matur, fólk sem þú þekkir osfrv. En ef báturinn er ekki lengur við bryggju, hvað ef þú horfðir á Cortés brenna hann? Þá veistu að það er ekki hægt að fara heim öðruvísi en klára verkefnið sem er fyrir hendi. Og sem hermaður kanntu að berjast en kannt kannski ekki að smíða nýtt skip, þá er auðveldara að fara áfram en reyna snúa við.

Nú er ég ekki með mjög græna fingur en eitt af því sem hefur „pirrað mig“ í sumarbústað foreldra minna er hvað tréin aftast á lóðinni, sem snýr að veginum, eru lítil. Það hefði verið frábært hefði þeim verið plantað 20 árum fyrr. En þar sem við getum ekki farið 20 ár aftur í tímann til að planta þeim þá er það besta sem við getum gert að planta þeim sem fyrst, eða mögulega endurplanta eldri trjám, en þá myndast hvort eð er eyða annarstaðar sem við þurfum að planta í. Bottom line er að því fyrr því betra og ef við eyðum tíma í að „syrgja það liðna“ þá seinkar bara framkvæmdinni.

Ef við heimfærum þetta enn betur á vinnumarkaðinn í dag þá mætti taka dæmi um ferðaþjónustufyrirtæki á Íslandi sem missti alla sína viðskiptavini þegar Covid faraldurinn skall á. Það hefði verið rosalega gott ef innanlandsmarkaður-tréinu hefði verið plantað áður en faraldurinn skall á, eða einhverju sem gat skapað tekjur á netinu, en fyrir þá sem gleymdu sér aðeins í uppsveiflu ferðamanna þá var besti tíminn til að planta nýja tréinu strax og aðgengið minnkaði að þáverandi viðskiptavinum. Sum fyrirtæki gerðu þetta og ríkið hjálpaði til með því að bjóða okkur íslendingum Ferðaávísun, þarna plöntuðu margir nýju tré en í þessu tilfelli var enginn bátur brenndur visvítandi, má kannski frekar segja að það hafi kviknað í þeim og sé enn verið að slökkva eldinn. Þeim mun fyrr sem þú plantar tréinu, þeim mun fyrr veitir það skjól.

Hvort sem þú ætlar að brenna bátinn eða planta nýju tré, þá mæli ég sterklega með því að allir starfsmenn viti af því þegar þetta er gert og ef þú getur gert það sjónrænna, þeim mun betra. Lencioni og félagar tóku dæmi frá tæknifyrirtæki þar sem eintak af gömlu vörunni var brennt úti á bílaplani í táknrænum gjörning. Það fyrirtæki hafði í nokkurn tíma verið með nýja og betri vöru, en starfsfólk var ekki alveg tilbúið að segja bless við gömlu vöruna og því var nýja vara ekkert að seljast. Eftir bálförina var öllum ljóst að stjórnendum var alvara með breytingarnar og að miðjumoð var ekki í boði, „allt eða ekkert“ var boðslapur dagsins.

Það er oft erfitt að taka upp nýja ferla eða nýjar vörur og því hvet ég þig til að hugsa það vandlega hvort mögulega þurfi að brenna bátinn á sama tíma og nýja tréinu er plantað.
Það þarf vonandi ekki að segja hugsandi fólki að þetta á ekkert alltaf við, en merkilega oft og stundum, bara stundum, getur verið gott að fá utanaðkomandi hjálp, hlutlausan aðilla, til að skoða með sér hvort ferlar séu að virka og séu sannalega að hámarka virði og nýtingu starfsfólks, tíma og fjármuna.

Færðu inn athugasemd