Hvað get ég gert?

Síðan ég skrifaði hér síðast hefur ýmislegt gerst. Ég hef tekið að mér tvö stærri verkefni, að hluta til sem tilraun eða áskorun á sjálfan mig, til að vita „hvað get ég gert?“.

Fyrra verkefnið snéri að því að endurræsa fyrirtæki í góðum rekstri, fyrirtæki sem gekk vel og óx ágætlega, en vildi meðal annars komast inní nútímann með vefverslun og endurskoðun á ýmsum skipulagsmálum.

Seinna verkefnið er enn í gangi, en það verkefni snýr að því að stuðla að vexti lítils fyrirtækis, koma því enn betur á kortið meðal almennings og fagmanna.

Þessi tvö verkefni hafa tekið mikinn tíma og því takmarkað verið gert í öðrum verkefnum á meðan.
En af hverju er ég að minnast á þetta? Er ég að afsaka mig? Síður en svo.

Pistill dagsins snýst um „hvað get ég gert?“ og er ekki sérstaklega að fjalla um mig heldur að þú spyrjir sjálfa/n þig þessarar spurningar og helst án þess að spurningunni fylgi efasemd eða tilfinningin „hver held ég eiginlega að ég sé?, ég er ekkert merkileg/ur“.
Við getum nefnilega gert ýmislegt, en það hjálpar óendanlega mikið að hafa trú á því að við getum þetta. Ef við höfum ekki trú á sjálfum okkur, af hverju ætti einhver annar að hafa trúa á okkur? Ef við höfum ekki trú á sjálfum okkur, þá er ekki líklegt að við setjum alla okkar krafta eða einbeitingu í verkið. Og eins skrýtið og það kann að hljóma fyrir einhverjum þá minnka líkurnar á því að okkur takist verkið ef við leggjum okkur ekki fram, það er orsakasamhengi þarna á milli.

Mín áskorun á sjálfan mig var að hafa vaxtar-áhrif á þessi tvö fyrirtæki og ég efaðist ekki á neinum tímapunkti að ég gæti það og ÞESS VEGNA hefur það gengið eftir.
Fyrirtæki vex ekki um 75% á einu ári bara af því þig langar til þess eða af því þú ert dugleg/ur í vinnunni. Slíkur vöxtur gerist bara af ásetningi og með eftirfylgni.

Allt þetta er til að segja: Þú getur allt sem þú ætlar þér. Vissulega klisja sem við heyrðum mörg hver sem krakkar, en klisja sem er rétt. Ef þú leggur þig fram við að gera hlutina, þá geturðu flest.

Fyrir suma er best að byrja á því að setja sér markmið sem er auðvelt að ná, því að það setur tóninn „ég get“.
Fyrir aðra er best að setja mjög háleit markmið, helst markmið sem virðist vonlaust að ná. Þeim mun hærra sem markmiðið er sett, þeim mun meira teygji ég mig. Setja þar með tónin „ég ætla“.
Fyrir enn aðra gæti verið besta að læra möntruna „get, ætla skal“ og bara byrja.

Allavega leyfi ég mér að fullyrða að „Þú getur ekkert ef þú reynir ekki“, spurningin er bara hvernig er best fyrir þig að byrja. „Hvernig“ en ekki „hvort“ eða „hvenær“
Þú getur nefnilega HELLING, en það gerist ekki af sjálfu sér bara að af því þú mættir til vinnu, heldur af því að þú ákveður að gera eitthvað.

Það byrjar allt á meðvitaðri ákvörðun. Ekki fresta þinni ákvörðun!

Færðu inn athugasemd